Greining og sýnataka af hvalreka við Hringsdal í Arnarfirði
Náttúrustofu barst tilkynning þann 4. júlí um hvalreka í flæðarmáli við Hingsdal í Arnarfirði.
Erfitt var að tegundagreina hvalinn af fyrstu myndum sem bárust. En stuttu seinna bárust aðrar myndir frá Veigu Grétarsdóttur, en með dróna náði hún myndum úr lofti og með þeim var auðvelt að greina helstu sérkenni hnúfubaks.
Eitt helsta tegundareinkenni hnúfubaka eru sérstaklega löng bægsli, sem samsvara um einum þriðja af heildarlengd hvalsins. Fremri brún bægslanna og aftari brún sporðsins hafa mjög óreglulega og hnúðótta lögun. Auk þess er bakuggi hnúfubaka frábrugðinn bakugga annarra skíðishvala, hann er hlutfallslega lítill og fyrir framan hann stendur lítill hnúður. Nafn tegundarinnar er einmitt dregið af þessum litla hnúð.
Þann 13. júlí vitjaði starfsmaður Náttúrustofu hnúfubakinn og tók vefjasýni sem sent var til Hafrannsóknastofnunar fyrir DNA greiningu. Enn sem komið er hefur stofunni ekki borist niðurstöður úr þeirri greiningu.
Read MoreTalningar á teistu
Í apríl heimsóttu starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða eyjuna Vigur. Markmið ferðarinnar var að meta fjölda varppara teista sem var gert með því að telja teistur í pörunaratferli.
Á vorin safnast teistur saman, bæði stuttu eftir birtingu að morgni og um sólsetur að kvöldi, í návígi við varpstöðvar til að þess að sinna tilhugalífinu. Það er einstök upplifun að fylgjast með þessum annars hljóðláta fugli iða, dansa og skrækja hvor á annann á meðan atferlið fer fram. Sérstaklega var mikið af teistu við íbúðarhúsin á eyjunni, en þar fylltist raunverulega fjaran af iðandi teistum.
Hvítur Snjótittlingur í Súðavík
Sjaldgæfur hvítur snjótittlingur hefur haldið til í Súðavík síðastliðnar tvær vikur í föruneyti 400 fugla sömu tegundar.
Fyrir utan nokkrar dökkar skellur á vængjum og baki er fuglinn nánast alhvítur, fætur appelsínugulir ólíkt dökkum fótleggjum tegundarinnar og augun dökk. Af þessu má áætla að hvíti liturinn stafi ekki af albínisma sem orsakast af algjörum skorti litarefnisins melanín, en það veldur alhvítum líkama, ljósbleikum fótleggjum og rauðum augum. Hvíti liturinn stafar líklega af leukisma (áður fyrr oft nefndur hálf-albínismi) sem dregur úr getu húðar, fjaðra og í einhverjum tilfellum goggs til að taka upp melanín sem veldur brúnum og svörtum lit, en hefur engin áhrif á carotenoid sem veldur gulum og appelsínugulum lit. Leukismi hefur engin áhirf á lit augna.
Leukismi er algengari meðal fugla en albínismi. Leukismi hefur mörg stig og birtingarform, allt frá nokkrum hvítum skellum yfir í nær alhvítan líkama.
Heimildir:
Izquierdo, L., Thomson, R. L., Aguirre, J. I., Díez‐Fernández, A., Faivre, B., Figuerola, J., & Ibáñez‐Álamo, J. D. (2018). Factors associated with leucism in the common blackbird Turdus merula. Journal of Avian Biology, 49(9), e01778.
Van Grouw, H., Mahabal, A., Sharma, R. M., & Thakur, S. (2016). How common is albinism really? Colour aberrations in Indian birds reviewed.