Glókollur sást aftur á Ísafirði
Náttúrustofunni barst sú frétt að glókollur (Regulus regulus) hafi sést í nágrenni Jónsgarðar á Ísafirði þann 20. september. Áður hafði sami einstaklingur séð glókoll þann 22. mars síðastliðinn. Þessi örsmái spörfugl er ekki algengur á Vestfjörðum en hefur fundist í litlum fjölda í öðrum landshlutum frá því að varp hans var staðfest á 90 áratugnum. Glókollar kjósa barrskóg eða blandaðan skóg en finnast einnig í görðum með stórum barrtrjám. Aðal fæðan er skordýr á barri eða greinum. Á vetrum éta glókollar einnig fræ og skordýr á jörðu niðri.
Í báðum tilfellum sáust fuglarnir eftir áflug á rúðu. Fuglinn flaug burt eftir að hafa jafnað sig dálítinn tíma. Hægt er að gera ráðstafanir til að draga úr áflugi fugla á rúður en það dregur þá oft til dauða þrátt fyrir að fuglarnir virðist hafa jafnað sig til að byrja með. Við viljum hvetja fólk til að kynna sér hvernig gera megi rúður sýnilegri til að draga úr hættu á áflugi okkar fiðruðu nágranna og jafnframt hvað best sé að gera fljúgi fugl á rúðu. Slíkar ráðleggingar má finna á síðum fuglaverndar, rannsóknarstofu Cornell í fuglafræði (The Cornell Lab of Ornithology) og síðu bandarísku náttúruverndarsamtakana National Audubon Society.
Við þökkum Önnsku enn og aftur fyrir að bera okkur fréttir. Við hvetjum jafnframt alla til að láta okkur vita verði þeir varir glókolla. Það gerir okkur kleift að fylgjast betur með útbreiðslu og fjölda þeirra á Vestfjörðum.
Read MoreNáttúrustofa Vestfjarða Árrskýrsla 2022
Ársskýrsla náttúrustofu Vestfjarða er komin út. Í skýrslunni má sjá lýsingar á þeim verkefnum sem unnin voru á stofunni á síðasta ári og má lesa hana á https://nave.snerpill.is/wp-content/uploads/2023/02/Arsskyrsla-2022_minnkud.pdf
Starfsárið 2022 var mjög fjölbreytt og fjöldi verkefna unnin, bæði á rannsóknarstyrkjum og í útseldri vinnu. Stór styrkur fékkst fyrir verkefnið vöktun sjávarlúsa á villtum laxfiskum og annar styrkur fyrir samanburðarverkefni á botndýralífi 10 árum eftir að fiskeldi hófst. Fjöldi verkefna voru unnin á sviði fuglarannsókna á Vestfjörðum, en hafist var handa við vöktun á tveimur kríuvörpum, teista talin í Vigur og farið á 10 mófuglasnið. Vöktun á gróðri hófst og steingervingar skráðir í tengslum við verkefnið Vöktun lykilþátta í íslenskri náttúru. Rann-sóknir í tengslum við vegaframkvæmdir frá Bjarkalundi að Skálanesi í Reykhólahrepp voru áfram þungi verkefnanna og nokkrar skýrslur voru gefnar út í tengslum við verkefnið, bæði á rannsóknir á lífríki og fornleifum. Skýrsla var gefin út um rannsóknir í tengslum við áætlanir um virkjanir í botni Dýrafjarðar og aðrar um fyrirhugaðar framkvæmdir vegna ofanflóðavarna á Bíldudal. Auk þess voru gerðar rannsóknir í tengslum við fiskeldi, ýmsar rannsóknir á fornleifum í tengslum við vegagerð, skipulag og skógrækt.
Read MoreVorið er að koma!
Heiðlóa (Pluvialis apricaria) sást á sunnanverðum Vestfjörðum um miðjan dag síðastliðinn sunnudag 2. apríl af Cristian Gallo. Það var kærkomin sjón, því í íslenskum þjóðsögum er sagt að tilkoma þessa vaðfugls marki upphaf vors. Heiðlóa hefur vetursetu í Vestur- og Suður-Evrópu og allt suður til Marokkó. Á sumrin verpir um það bil helmingur heiðlóustofn heimsins á Íslandi sem gerir heiðar landsins að mjög mikilvægu búsvæði fyrir stofninn.
Read MoreStuttar fréttir: Glókullur sést á Ísafirði
Glókollur (regulus regulus) sást á Ísafirði í síðustu viku. Hann er minnsti fugl Evrópu og þá jafnframt minnsti fugl Íslands. Þó að það séu lítil samfélög þessara fugla í kringum Ísland (um 1000-2000 einstaklingar alls), sem kjósa frekar greniskóga, er þetta í fyrsta sinn sem vitað er um hann á norðanverðum Vestfjörðum.
Myndirnar voru teknar af Önnsku Ólafsdóttur á Ísafirði. Upplýsingar voru fengnar frá fuglavefurinn.is.
Read MoreÁrsreikningur Náttúrustofu Vestfjarða fyrir árið 2022
Ársreikningar Náttúrustofu Vestfjarða fyrir árið 2022 voru samþykktir á stjórnarfundi miðvikudaginn 1. mars s.l. Velta stofunnar árið 2022 var um 147 milljónir króna. Umsvifin hafa farið vaxandi undanfarin ár og afkoman batnað þannig að tekjur hafa verið nokkru meiri en gjöld. Fjárhagsstaða stofunnar hefur batnað sem því nemur.
Árið 1997 var fyrsta rekstrarár Náttúrustofunnar. Síðan þá til og með ársins 2022 hafa samanlagðar tekjur stofunnar verið á milli 1,6 og 1,7 milljarðar króna. Rekstrargjöld hafa nánast verið þau sömu, þannig að munurinn á tekjum og gjöldum á tímabilinu er um 230 þúsund krónur í mínus. Heildar launagreiðslur og launatengd gjöld hafa á starfstímanum verið um 1,25 milljarðar.
Náttúrustofa Vestfjarða er ein af 8 starfandi náttúrustofum á Íslandi. Hún var stofnuð af Bolungarvíkurkaupstað og ríkinu árið 1996. Árið 2003 fluttist stjórn Náttúrustofa alfarið til sveitarfélaga. Bolungarvíkurkaupstaður var fyrstu árin eftir það einn um reksturinn en árið 2007 gerðust Súðavíkurhreppur og Ísafjarðarbær aðilar að stofunni og Tálknafjarðarhreppur, Strandabyggð og Vesturbyggð nokkru síðar.
Hlutverk stofunnar eru almennar náttúrurannsóknir, einkum á sínu starfssvæði, og að veita ráðgjöf um landnýtingu og náttúru. Tekjur koma frá útseldri þjónustu, verkefnastyrkjum og föstum framlögum frá ríki og sveitarfélögum. Sjá má skiptingu tekna á Mynd 1.
Hjá NAVE eru 10 fastráðnir starfsmenn, sem starfa ýmist án staðsetningar eða á 2 starfsstöðvum stofunnar, í Bolungarvík og á Patreksfirði. Undanfarin ár hefur stofan rekið 3 starfsstöðvar, en sem stendur er ekki starfsmaður á starfsstöðinni í Strandabyggð. Á sumrin bætist svo við sumarstarfsfólk, auk þess sem nemar frá öðum löndum hafa á undanförnum árum komið til starfa í nokkra mánuði í senn.
Helstu verkefni á árinu 2022 voru verkefni á sviði umhverfisvöktunar, svo sem á fuglum og sjávarlífverum, náttúru- og fornleifarannsóknir vegna framkvæmda og grunnrannsóknir (Myndir 2-9).
Sjógöngufiskar og laxalýs í Jökulfjörðum
Náttúrustofa Vestfjarða kannaði sjávarlúsaálag á villtum laxfiskum í Leirufirði í Jökulfjörðum sumarið 2021 með styrk frá Fiskræktarsjóði. Með því að kanna sjávarlúsaálag á svæði þar sem ekkert laxfiskaeldi er til staðar er hægt að fá fram upplýsingar um náttúrulegt sjávarlúsaálag. Með því að bera saman grunngögn um náttúrulegt sjávarlúsaálag sem safnað er núna við gögn sem safnað verður í framtíðinni er betur hægt að segja til um hvaða áhrif aukið fiskaeldi í Ísafjarðardjúpi hefur á sjávarlúsaálag á villtum laxfiskum í Jökulfjörðum.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að á þessu afskekkta svæði er töluverður fjöldi sjóbleikja (Salvelinus alpinus) svipað og við Kaldalón, en aðeins fengust sjóbleikjur í þessari rannsókn. Engar fiskilýs (Caligus elongatus) fundust á þeim og laxalúsaálag (Lepeophtheirus salmonis) var lítið og mældist lægra í Leirufirði en á öðrum svæðum á Vestfjörðum.
Skýrsluna “Vöktun sjávarlúsa á villtum laxfiskum í Jökulfjörðum 2021” má finna https://nave.snerpill.is/wp-content/uploads/2023/02/Voktun-sjavarlusa-a-villtum-laxfiskum-i-Jokulfjordum-2021.pdf.
Þetta er fjórða skýrslan sem Náttúrustofan gefur út um lúsasmit villtra laxfiska en hingað til hafa rannsóknir stofunnar á fjölda sjávarlúsa á villtum laxfiskum einkum verið í nágrenni sjókvía. Allar skýrslurnar er hægt að finna á heimasíðunni https://nave.snerpill.is/documents (2018, 2019, 2021). Þess má geta að Náttúrustofan fékk annan styrk á síðastliðnu ári frá Umhverfissjóði sjókvíaeldis og er með í vinnslu verkefni um Arnarfjörð þar sem borin eru saman tvö svæði innan fjarðarins. Á þessu ári munu vöktunarverkefni Náttúrustofunnar ná til Patreksfjarðar, Tálknafjarðar, Dýrafjarðar og Kaldalóns á Vestfjörðum auk Seyðisfjarðar og Stöðvarfjarðar á Austurlandi.
– Margrét Thorsteinsson
Vetrarfuglatalningu 2022 lokið
Nú hefur árlegu vetrarfuglatalningunum á Vestfjörðum verið lokið. Markmið verkefnisins er að safna upplýsingum um fjölda og dreifingu fugla að vetrarlagi. Talningarnar hófust árið 1952 og er þetta því ein lengsta samfellda vöktun sem stunduð hefur verið hér á landi. Náttúrufræðistofnun Íslands er með yfirumsjón með verkefninu á landinu öllu í samstarfi við sjálfboðaliða og Náttúrustofur landsins. Náttúrufræðistofnun birtir niðurstöður talninga fyrir allt landið á heimasíðu sinni: https://www.ni.is/greinar/vetrarfuglatalningar-nidurstodur
Starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða töldu fugla á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Dýrafirði, Önundarfirði, Súgandafirði, Skutulsfirði, Álftafirði, Hestfirði, Skötufirði og í Bolungarvík. Í Steingrímsfirði töldu Matthías Sævar Lýðsson og Hafdís Sturlaugsdóttir. Á Reykhólum og nágrenni töldu Tómas Sigurgeirsson, Jón Atli Játvarðsson og Eiríkur Kristjánsson.
Í ár voru skráðir tæplega 20 þúsund fuglar af 43 tegundum á Vestfjörðum. Mestur var fjöldi fugla í Steingrímsfirði og í Skutulsfirði en þar sáust yfir 3 þúsund fuglar. Eins og áður var æðarfuglinn (Somateria mollissima) lang algengastur en næst kom snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) og svo bjartmáfur (Larus glaucoides).
Mest var af fuglum þeirra tegunda sem teljast algengar á Íslandi yfir vetrartímann. Af óalgengari vetrartegundum sem sáust í ár má fyrst nefna eina tildru (Arenaria interpres) sem sást við Höfða í Dýrafirði og æðarkóng (Somateria spectabilis) við Arnardalsá í Skutulsfirði. Ein brandönd (Tadorna tadorna) og ein hvinönd (Bucephala clangula) voru við Holt í Önundarfirði og tvær ritur (Rissa tridactyla) á Gálmaströnd í Steingrímsfirði. Tveir smyrlar (Falco columbarius) sáust, annar við Kokkálsvík á Drangsnesi en hinn við Reykhóla en þar sást einnig ein grágæs (Anser anser). Tvær silkitoppur (Bombycilla garrulus) sáust (Mynd 1), ein við bæinn Kirkjuból í Önundarfirði og ein á Patreksfirði. Gráþrestirnir (Turdus pilaris) voru þrír í þetta sinn (Mynd 2), einn á Tálknafirði, annar á Reykhólum en hinn þriðji í Súðavík en þar sáust einnig níu hettumáfar (Larus ridibundus).
Stara (Sturnus vulgaris) og gulönd (Mergus merganser) fjölgaði hlutfallslega mest þetta árið. Stari sást í öllum þorpum Vestfjarða nema á Suðureyri og í Súðavík. Flestir voru þeir á Tálknafirði og á Þingeyri. Stararnir voru oft með svartþröstum (Turdus merula) og skógarþröstum (Turdus iliacus)en nokkrir þeirra fundust á svæðinu.
Greining og sýnataka af hvalreka við Hringsdal í Arnarfirði
Náttúrustofu barst tilkynning þann 4. júlí um hvalreka í flæðarmáli við Hingsdal í Arnarfirði.
Erfitt var að tegundagreina hvalinn af fyrstu myndum sem bárust. En stuttu seinna bárust aðrar myndir frá Veigu Grétarsdóttur, en með dróna náði hún myndum úr lofti og með þeim var auðvelt að greina helstu sérkenni hnúfubaks.
Eitt helsta tegundareinkenni hnúfubaka eru sérstaklega löng bægsli, sem samsvara um einum þriðja af heildarlengd hvalsins. Fremri brún bægslanna og aftari brún sporðsins hafa mjög óreglulega og hnúðótta lögun. Auk þess er bakuggi hnúfubaka frábrugðinn bakugga annarra skíðishvala, hann er hlutfallslega lítill og fyrir framan hann stendur lítill hnúður. Nafn tegundarinnar er einmitt dregið af þessum litla hnúð.
Þann 13. júlí vitjaði starfsmaður Náttúrustofu hnúfubakinn og tók vefjasýni sem sent var til Hafrannsóknastofnunar fyrir DNA greiningu. Enn sem komið er hefur stofunni ekki borist niðurstöður úr þeirri greiningu.
Ársskýrsla Náttúrustofu Vestfjarða 2021 komin út
Ársskýrsla Náttúrustofu Vestfjarða 2021 er komin út og mun eingöngu verða birt á rafrænu formi. Skýrsluna má finna með því að ýta á myndina og undir útgefið efni.
Talningar á teistu
Í apríl heimsóttu starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða eyjuna Vigur. Markmið ferðarinnar var að meta fjölda varppara teista sem var gert með því að telja teistur í pörunaratferli.
Á vorin safnast teistur saman, bæði stuttu eftir birtingu að morgni og um sólsetur að kvöldi, í návígi við varpstöðvar til að þess að sinna tilhugalífinu. Það er einstök upplifun að fylgjast með þessum annars hljóðláta fugli iða, dansa og skrækja hvor á annann á meðan atferlið fer fram. Sérstaklega var mikið af teistu við íbúðarhúsin á eyjunni, en þar fylltist raunverulega fjaran af iðandi teistum.