Fornleifarannsóknir í Arnarfirði 2020
Í ágúst var haldið áfram með fornleifarannsóknina Arnarfjörður á miðöldum fyrir styrki eins og greint var frá í vor. Við rannsóknina unnu fornleifafræðingarnir Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Kristín Sylvía Ragnarsdóttir, Gunnar Grímsson, James McGovern, Kate Fitzpatrick og Jonathan Buttery auk aðstoðar frá Herdísi Friðriksdóttur.
Þetta árið var lögð áhersla á ósvaraðar spurningar, ljúka vinnu við skálann á Auðkúlu, rannsaka tóft rétt sunnan við skálann, staðsetja líklegan skála í túninu á Hrafnseyri og kortleggja öll ummerki fornleifa í Arnarfirði með drónamyndum og hitamyndavél.
Allt svæðið var fyrst opnað og hreinsað. Við uppgröftinn komu í ljós margar stoðarholur, bæði innan skála og utan. Að innan fundust þær undir gólflaginu sem var tekið upp árið 2019. Stoðarholurnar segja til um það hvernig þakinu var haldið uppi. Stoðarholur sem fundust utan skála voru líklega eftir stoðir til að styrkja veggi. Veggir skálans voru gerðir greinilegri og líklegur eldri inngangur fannst þar sem op inn í viðbygginguna er staðsett nú. Lokið var við að grafa upp skálann og gengið var frá honum með torfi á veggjum.
Rétt sunnan við skálann var grafið upp jarðhýsi. Í því var stór steinhlaðinn ofn sem var alsettur eldsprungnum steinum og kolum, gólflag var í húsinu og var það þéttast við miðju. Stoðarholur var einnig að finna við suðurvegg og ein við norðurvegg en þar voru einnig nýttir stoðasteinar. Jarðhýsið var grafið upp að fullu og því lokað í enda sumars með torfi á veggjum.
Borkjarnarannsóknir frá árinu 2019 leiddu í ljós að einhverskonar mannvirki væri að finna í túninu neðan við kirkjuna á Hrafnseyri. Tveir könnunarskurðir voru grafnir til að kanna hverskonar mannvirki þetta gætu verið. Uppgröftur sýndi að þar væri að finna stóran skála. Skálinn fannst nokkrum metrum frá öskuhaug og jarðhýsi sem hafði verið grafið þar áður. Í könnunarskurðunum kom í ljós stór og þykkur veggur og svart gólflag. Skálinn er að öllum líkindum mjög stór því gólfið sást í báðum skurðum. Skálinn er því að minnsta kosti 17 metra langur.
Myndataka með dróna og hitamyndavél voru notaðar við kortlagningu fornleifanna í Arnarfirði. Námsmaður á nýsköpunarstyrk (sjá fyrri frétt), Gunnar Grímsson staðsetti áður þekktar og óþekktar minjar sem sjást illa á yfirborðinu. Með drónanum var einnig búið til þrívíddarlíkan af uppgraftarsvæðinu á Auðkúlu.
Segja má að þessi rannsókn hafi leitt í ljós miklar mannvistarleifar af fjölbreyttu tagi.