Náttúrustofa Vestfjarða (NAVE) er náttúruvísindastofnun staðsett í Bolungarvík
|
NAVE er nú ein af 8 náttúrustofum á landinu. Saman hafa þær með sér samtök; Samtök náttúrustofa (SNS). Náttúrustofa Vestfjarða (NAVE) hóf starfsemi í ársbyrjun 1997.
Stofan var stofnuð af Bolungarvíkurkaupstað með rekstrarstuðningi frá ríkinu á grunni þágildandi laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992. Stjórn náttúrustofa var skipuð þremur einstaklingum, tveimur af eigendum í héraði en ráðherra skipaði einn og var hann formaður. Með breytingum á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur nr. 92/2002, sem gengu í gildi 1. janúar 2003, færðist rekstur náttúrustofanna alfarið á sveitarfélögin þó með stuðningi frá ríkissjóði samkvæmt samningum þar um. Sveitarfélögin skipuðu þá alla stjórnina.
Súðavíkurhreppur og Ísafjarðarbær gerðust aðilar að NAVE árið 2007 og Tálknafjarðarhreppur, Strandabyggð og Vesturbyggð nokkru síðar. Voru þá ráðnir starfsmenn á Hólmavík og Patreksfirði, en áður hafði stofan aðeins starfað í Bolungarvík.
Stjórn Nave
Stjórn NAVE er þannig skipuð að formaður er Smári Haraldsson líffræðingur og meðstjórnendur þau Catherine Chambers, PhD., sjávarútvegsfræðingur og Lilja Magnúsdóttir, M.S., skógfræðingur. Varastjórn skipa, Matthías Lýðsson, Bragi Þór Thoroddsen og Guðrún Anna Finnbogadóttir. Er aðal- og varastjórn fulltrúar þeirra sex sveitarfélaga sem að stofunni standa. Sveitarfélögin sex sem að stofunni standa eru Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Strandabyggð, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur.