Vetrarfuglatalningu 2022 lokið
Nú hefur árlegu vetrarfuglatalningunum á Vestfjörðum verið lokið. Markmið verkefnisins er að safna upplýsingum um fjölda og dreifingu fugla að vetrarlagi. Talningarnar hófust árið 1952 og er þetta því ein lengsta samfellda vöktun sem stunduð hefur verið hér á landi. Náttúrufræðistofnun Íslands er með yfirumsjón með verkefninu á landinu öllu í samstarfi við sjálfboðaliða og Náttúrustofur landsins. Náttúrufræðistofnun birtir niðurstöður talninga fyrir allt landið á heimasíðu sinni: https://www.ni.is/greinar/vetrarfuglatalningar-nidurstodur
Starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða töldu fugla á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Dýrafirði, Önundarfirði, Súgandafirði, Skutulsfirði, Álftafirði, Hestfirði, Skötufirði og í Bolungarvík. Í Steingrímsfirði töldu Matthías Sævar Lýðsson og Hafdís Sturlaugsdóttir. Á Reykhólum og nágrenni töldu Tómas Sigurgeirsson, Jón Atli Játvarðsson og Eiríkur Kristjánsson.
Í ár voru skráðir tæplega 20 þúsund fuglar af 43 tegundum á Vestfjörðum. Mestur var fjöldi fugla í Steingrímsfirði og í Skutulsfirði en þar sáust yfir 3 þúsund fuglar. Eins og áður var æðarfuglinn (Somateria mollissima) lang algengastur en næst kom snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) og svo bjartmáfur (Larus glaucoides).
Mest var af fuglum þeirra tegunda sem teljast algengar á Íslandi yfir vetrartímann. Af óalgengari vetrartegundum sem sáust í ár má fyrst nefna eina tildru (Arenaria interpres) sem sást við Höfða í Dýrafirði og æðarkóng (Somateria spectabilis) við Arnardalsá í Skutulsfirði. Ein brandönd (Tadorna tadorna) og ein hvinönd (Bucephala clangula) voru við Holt í Önundarfirði og tvær ritur (Rissa tridactyla) á Gálmaströnd í Steingrímsfirði. Tveir smyrlar (Falco columbarius) sáust, annar við Kokkálsvík á Drangsnesi en hinn við Reykhóla en þar sást einnig ein grágæs (Anser anser). Tvær silkitoppur (Bombycilla garrulus) sáust (Mynd 1), ein við bæinn Kirkjuból í Önundarfirði og ein á Patreksfirði. Gráþrestirnir (Turdus pilaris) voru þrír í þetta sinn (Mynd 2), einn á Tálknafirði, annar á Reykhólum en hinn þriðji í Súðavík en þar sáust einnig níu hettumáfar (Larus ridibundus).
Stara (Sturnus vulgaris) og gulönd (Mergus merganser) fjölgaði hlutfallslega mest þetta árið. Stari sást í öllum þorpum Vestfjarða nema á Suðureyri og í Súðavík. Flestir voru þeir á Tálknafirði og á Þingeyri. Stararnir voru oft með svartþröstum (Turdus merula) og skógarþröstum (Turdus iliacus)en nokkrir þeirra fundust á svæðinu.